Fara í innihald

Platon

Úr Wikivitnun, frjálsa tilvitnanasafninu
Platon

Platon (427 – 347 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur.

Tilvitnanir[breyta]

  • „Guð veit hvort þetta er satt. En það sem ég sé kemur mér alltént svona fyrir sjónir: á hinstu mörkum þess sem þekkt verður er frummynd hins góða, og erfitt er að festa sjónir á henni. En sá sem sér hana hlýtur að álykta að hún sé orsök alls þess sem er rétt og fagurt og að hún sé foreldri ljóssins í hinum sýnilega heimi og gjafara þess; ennfremur að á hinu huglæga sviði, þar sem hún er sjálf drottning, sé hún höfundur sannleika og hugsunar...“
Sókrates í Ríkinu 517B-C (þýð. Eyjólfs Kjalars Emilssonar)
  • „Og vissulega er sá sæll og hamingjusamur sem lifir vel, en sá sem lifir illa hið gagnstæða.“
Sókrates í Ríkinu (þýð. Eyjólfs Kjalars Emilssonar)
  • „Hvað hugrekki varðar „stenst jafnvel Ares ekki Erosi snúning“. Því ekki hefur Ares vald yfir ástinni, heldur ástin yfir Aresi — ást á Afródítu, segir sagan. En sá sem hefur valdið er sterkasri en sá sem er haldið. Þar sem Eros hefur nú á valdi sínu þann sem er öllum öðrum hugaðri hlýtur Eros að vera hugaðastur allra.“
Agaþon í Samdrykkjunni (þýð. Eyjólfs Kjalars Emilssonar)
  • „Þeim mun vitrari sem þú ert, þeim mun hamingjusamari verður þú einnig.“
Sókrates í Karmídesi
  • „Ég neita því, Kallíkles, að það sé hin mesta lítilmennska að láta slá sig saklausan utan undir eða að líkami manns eða pyngja verði að þola einhverjar raunir. Ég held fram að það sé meiri lítilmennska að slá og skera mig eða mína saklausa en fyrir mig að þola þetta. Sama á við um þjófnað, mannrán innbrot og hvaða glæpi sem er: þeir eru verri fyrir þann sem drýgir þá en hinn sem fyrir þeim verður.“
Sókrates í Gorgíasi 508D-E (þýð. Eyjólfs Kjalars Emilssonar)
  • „Við eigum á hvorki að gjalda rangt með röngu, né gera nokkrum manni illt, hvað sem við verðum að þola af honum.“
Sókrates í Krítoni 49 (þýð. Sigurðar Nordal)
  • „Að mínu mati verðum við því fyrst að gera greinarmun og spyrja hvað það er sem ætíð er en verður aldrei; og hvað er það sem er sífellt verðandi en er aldrei. Það sem er höndlað af skilningi og skynsemi er ávallt samt við sig. En viðfang skoðunar með hjálp skynjunar er alltaf verðandi og hverfandi en er aldrei í raun.“
Tímajos 27D-28A.
  • „En að rétt meining og þekking séu sitt hvað, það sýnist mér ekki vera einber ágiskun, heldur er þetta einn af örfáum hlutum sem ég held ég gæti talið til þess sem ég veit.“
Sókrates í Menoni 98B (þýð. Sveinbjarnar Egilssonar)
  • „Ef við getum ekki fræðzt af öðrum eða fundið sannleikann sjálfir, þá hljótum við að kjósa þá skoðun manna, sem örðugast er að hrekja og láta berast á henni eins og á fleka um ólgusjó þessa lífs.“
Simmías í Fædoni 85 (þýð. Sigurðar Nordal)
  • „Það er göfgandi að stunda heimspeki í menntunarskyni, og unglingi er alls engin vansæmd að því. En ef maður er fulltíða og tekinn að eldast og leggur enn stund á heimspeki, þá verður hann hlægilegur, Sókrates. Ég ber sömu tilfinningar til heimspekinema og til lítilla barna sem hjala og leika sér.“
Kallíkles í Gorgíasi 485A-B (þýð. Eyjólfs Kjalars Emilssonar)

Tenglar[breyta]

Wikipedia hefur grein um