Fara í innihald

Davíð Oddsson

Úr Wikivitnun, frjálsa tilvitnanasafninu
Davíð Oddsson

Davíð Oddsson er íslenskur stjórnmálamaður sem ætlar ađ vinna

kosningarnar í forsetamálum 2016.

Tilvitnanir[breyta]

 • „Mér finnst það koma úr hörðustu átt, þegar maður talar af lítilsvirðingu um stuttbuxur eftir að hafa haft atvinnu af því að hlaupa um á þeim í áratugi.“
Albert Guðmundsson hafði á fundi í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna 1975 svarað gagnrýni frá Davíð með því, að hann hlustaði ekki á stuttbuxnadeildina (unga sjálfstæðismenn) í þessu máli.
 • „Á dögunum var Alþingi sett með guðsþjónustu í dómkirkjunni. Ég tók eftir, að presturinn horfði fyrst á Steingrím, síðan á Ólaf Ragnar, þá á Jón Baldvin og bað svo fyrir þjóðinni!“
Ræða á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 1991. Þá var Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra, Ólafur R. Grímsson fjármálaráðherra og Jón B. Hannibalsson utanríkisráðherra.
 • „Þetta gera menn ekki!“
Í kvöldfréttum Sjónvarpsins 9. nóvember 1994, eftir að uppskátt varð um sérstakar ráðstafanir, sem fjármálaráðuneytið vildi gera til að tryggja fulla skattlagningu blaðburðar- og merkjasölubarna.
 • „Við verðum að breyta viðhorfi fólks til hins opinbera. Það á ekki að vera eins og síldarnót til að festa fólk í, heldur eins og öryggisnet, sem enginn fellur niður fyrir.“
Ræða á þingi Sambands ungra sjálfstæðismanna á Akureyri 18. ágúst 1995, sjá Morgunblaðið 19. ágúst 1995.
 • „Þið skuluð ekki kippa ykkur upp við það, hvernig Össur lætur við mig. Hann kemur ekki svona fram við neina aðra en þá, sem eru fyrir framan hann í stafrófinu.“
Í upphafi ræðu á þorrablóti Íslendingafélagsins í Lundúnum í febrúar 1999, þar sem Össur Skarphéðinsson var veislustjóri og hafði farið óvinsamlegum orðum í kynningu um Davíð, sem var ræðumaður kvöldsins.
 • „Vinstri flokkarnir eru í nokkrum vanda. Þeim gengur ekki vel, nema þjóðinni gangi illa. Og þjóðinni gengur ekki illa, nema vinstri flokkarnir séu við völd!“
Í baráttunni fyrir þingkosningar 8. maí 1999.
 • „Vindhanar verða aldrei áttavitar, hvorki til sjós né lands.“
Ræða á viðskiptaþingi Verslunarráðs Íslands 8. febrúar 2001. Ýmsir stjórnarandstæðingar höfðu fyrst lagt til, að Landsbankinn og Búnaðarbankinn yrðu sameinaðir, en síðan fagnað úrskurði Samkeppnisráðs um, að slík sameining væri óeðlileg.
 • „Halda menn virkilega, að hermdarverkamennirnir, sem drápu mörg þúsund menn á einu augabragði og reyndu að drepa tugi þúsunda til viðbótar, hafi verið að biðja um fund?“
Setningarræða á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 11. október 2001. Mánuði áður, 11. september 2001, höfðu sjálfsmorðssveitir frá Arabalöndum grandað fjölda fólks með því að fljúga stórum farþegaþotum á tvíburaturnana í New York og á Pentagon, hús bandaríska varnarmálaráðuneytisins, skammt frá Washington D.C.
 • „Sumir hafa sagt að ég yrði óhæfur í stjórnarandstöðu á Alþingi vegna þess að ég myndi ekki finna mig í því hlutverki. Vel getur verið að það tæki mig tíma að átta mig á þeirri stöðu en þó ég segi sjálfur frá þá stóð ég mig ekki illa í stjórnarandstöðu í borginni áður en ég varð borgarstjóri. Ég þótti jafnvel ósvífinn og kosningabaráttan sem stóð frá 1980 til 1982 var mjög hörð. Ég gerði öll mál tortryggileg og fylgdi þeirri reglu veiðimannsins að maður má ekki einungis kasta flugu sem manni finnst falleg því að maður veit aldrei hvaða flugu laxinn tekur. Ég tók því upp öll mál, jafnvel þó að ég væri í hjarta mínu samþykkur þeim, og hjólaði í þau því að ég leit á stjórnarandstöðu sem stjórnarandstöðu.“
Morgunblaðið 3. janúar 2001 [1]
 • „Og maður hefur þá tilfinningu að þar með sé auðvelt að skjóta undan fjármunum þannig að ríkisvaldið eigi miklu erfiðara ef að skattaálagning verður í samræmi við skattrannsókn að ná til sín þeim fjármunum sem þarna eru á ferðinni. Þetta hafði allt þann brag að þarna væri verið að kaupa og selja þýfi í mínum huga. ------ Þann sama dag sem skattrannsóknarstjóri skilar af sér rannsókn sem snýst um grunsemdir um að það blasi við að maður nokkur sé mesti skattsvikari Íslandssögunnar stendur þessi banki fyrir því að losa hans eignir héðan.“
Fyrri ummælin voru sögð í viðtali í Ríkisútvarpinu 21. nóvember 2003 ----- Seinni ummælin úr Morgunblaðinu degi síðar. Hér talaði Davíð um Jón Ólafsson kaupsýslumann. Jón kærði síðan Davíð og fékk hann dæmdan ómerking orða sinna.
 • „Það eru allir með endurhæfingunni í Írak nema Samfylkingin á Íslandi. Norðmenn sem ekki voru með standa núna með því sem er að gerast í Írak. En Samfylkingin er eins og gamall afturhaldskommatittsflokkur og ætlar sér aldrei að verða stór og getur þess vegna ekki stutt verðugt verkefni eins og þetta.“
Svar á Alþingi 29. nóvember 2004 vegna umræðu um stuðning Íslands við hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna í Írak.
 • „Mér líst bara vel á þessa tillögu. En er ekki hyggilegast að friðlýsa fyrst Árbæjarhverfi, og ef það gefst vel, að friðlýsa þá allt höfuðborgarsvæðið í framhaldinu?“
Á borgarstjórnarfundi, eftir að Kvennalistinn í borgarstjórn hafði borið fram tillögu um að friðlýsa Reykjavík.
 • „Og í ár eru það nýjustu fréttir í samanburðarfræðunum að það er sameiginlegt mat Harvard-háskóla og stofnunar sem nefnist World Economic Forum, að Ísland sé í fyrsta sæti þegar kannað er í hvaða ríkjum menn búa við minnsta spillingu. Miðað við það hvernig dansinn getur dunað í dægurumræðunni hér á landi þegar svonefnd spillingarmál eru rædd, mætti fremur ætla að við sætum eins og klessur í botnsætinu, en að við skipuðum virðingarsætið á toppnum að mati heimsþekktra stofnana.“
  [2]
 • „Hin glæsilega formannskosning og þessi góði, virki, öflugi fundur verður sjálfstæðismönnum glæsilegt veganesti inn í framtíðina. Þetta er líka gott veganesti fyrir mig, með vissum hætti vegna þess get ég núna í bókstaflegri merkingu orðsins horfið glaður og keikur af hinu pólitíska sviði og það geri ég núna. Þakka ykkur fyrir,“
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 16. október 2005 þegar ljóst var að Geir H. Haarde yrði næsti formaður flokksins.[3]
 • „Nei, en hefur þú velt fyrir þér að hætta þínu starfi?“
Á blaðamannafundi í Seðlabankanum 2008, þegar blaðamaður spurði hvort hann hafi hugleitt það að segja af sér.
 • „Það þekkja allir krataflón, er koma í valdsins hallir, þeir mega ekki sjá míkrafón, þá mígleka þeir allir.“
Ræða á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2009 um nýtt persónulegt met Össurar Skarphéðinssonar í að þaga um leynifund sinn og Ögmundar Jónassonar, þar sem plottuð var ný ríkisstjórn, Samfylkingar og Vinsti Grænna.
 • „Þarna situr forsætisráðherra frammi og skelfur eins og lauf í vindi og getur ekki tekið ákvörðun. Hann hlustar á þig og þú ert að grafa undan þessu. Ef þetta gengur ekki fram mun ég persónulega sjá til þess að þér verði ólíft á Íslandi það sem eftir er. “
Davíð þáverandi seðlabankastjóri við Tryggva Þór Herbertsson þáverandi efnahagsráðgjafa forsætisráðherra Geir H. Haarde ef hann styddi ekki tillögur Davíðs um yfirtöku ríkisins á 75 prósenta hlut í Glitni. Davíð neitaði hins vegar að hafa látið þau orð falla að hann myndi sjá til þess að Tryggva yrði ólíft á Íslandi. Þess í stað hefði hann sagt: „Og ég sagði við hann að ég mundi sjá til þess, ef hann héldi þessu áfram, að hann færi út úr húsinu og það yrðu gefin fyrirmæli um það að hann færi ekki inn í það aftur. Ég held að Ísland hafi ekki verið, sko, hann gæti verið á Íslandi en þetta var skýringin. [4]
 • „Ég varð nú eiginlega fyrir „sjokki“ þarna daginn eftir að menn ætla að taka Glitni yfir, þá sé ég í fyrsta skipti svona útdrátt úr lánabók, um stærstu skuldara, og þá sé ég að eigandi bankans virðist í þeim tölum skulda 170 milljarða, en reyndar reyndust það vera 300 og eitthvað milljarðar. Þá er forstjóri Fjármálaeftirlitsins staddur í bankanum og mér varð svo mikið um þetta að ég hljóp niður á fyrstu hæðina, þar sem hann var, og kallaði hann yfir í næsta herbergi og sýndi honum þessar tölur, þar sem sko Baugur, Glaumur og FL Group og Landic Property og bara 360... þá sagði forstjóri Fjármálaeftirlitsins: Þú misskilur þetta, þetta eru ekkert sömu aðilarnir. Þá lamdi ég nú fast í borðið og sagði: Þú talar ekki svona við mig drengur.“
Úr Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010. Davíð segir sjálfur frá
 • „Eina málefnalega og sanngjarna niðurstaðan sem hægt er að komast að er að bankastjórnin [Seðlabankans] þáverandi hafi hvergi gerst sek um mistök eða vanrækslu sem hægt er að fella undir þessi skilyrði. Reynir nú á manndóm nefndarmanna og að þeir séu ráðnir í að láta ekki annað en málefnaleg sjónarmið hafa áhrif á orð sín og gerðir.“
Síðustu tvær setningar Davíðs í 50 blaðsíðna máli sínu til rannsóknarnefndar Alþingis.

Bermúdaskálaræðan[breyta]

 • „Það er alltaf gaman að því að bjóða íslendinga velkomna heim. Þegar menn koma heim með Flugleiðum, þá er sagt: Velkomin heim. Þið komuð með SAS. Við segjum: Velkomin heim — aldrei skemmtilegra heldur en núna að segja Velkomin heim. Við höfum fylgst með ykkur öll þessa daga í Japan og við höfum lifað, vakað, sofið — stundum of mikið — með ykkur þessa daga í Japan. Þið hafið kannski haldið að þið hafið átt bágt í lokaða og hálflokaða salnum í Yokohama. Við höfum átt líka bágt í opnum sölum hér heima. Við höfum fylgst mjög nákvæmlega með því sem þið voruð að gera, allri snilldinni, og auðvitað líka þegar þið gerðuð hitt sem var ekki eins snjallt — ég er ekki að skamma hann Jón fyrir eitt grand redoblað — það sýnir kjark og kraft að rugla Pólverja. Við erum afskaplega stolt af ykkur. Þið höfðuð ákveðna tækni undir lokin, skrýtna tækni. Auðvitað höfðuð þið tækni dirfskunnar, kraftsins, áræðis og þors og spiluðuð fast og gáfuð ykkur hvergi án þess að spila of fast. En þið höfðuð líka sérstaka tækni sem við höfum verið mjög montin af hér heima. Og hvaða tækni var það? Það var brostæknin. En ef þið haldið að sú tækni hafi dugað okkur hér heima þennan tíma, þá er það misskilningur. Það bros var frosið hér heima allan þennan tíma. En þegar úrslitin voru um það bil ljós og þegar þau voru ljós, þá kom þessi þjóð upp með þessa sömu tækni. Á strætisvagnastöðvum, í bíó, hvar sem menn hittust þá var brostæknin þar. Jafnvel í þinginu voru gamlir fjandmenn farnir að brosa hver framan í annan og héldu að það ætti að vera þannig. Erum við minni máttar, íslendingar, að taka sigri eins og þessum með þeim hætti sem við tökum? Nei, við erum það ekki. Erum við montrassgöt úr hófi fram að taka sigri, eins og þið hafið unnið fyrir okkur, með þeim hætti sem við höfum gert? Nei, við erum það ekki. Við lítum þannig á að sigurinn sem þið unnuð — auðvitað fyrir ykkur og fyrir bridsið og fyrir okkur — það er engin tilviljun. Við horfum yfir það, sem hefur gerst undanfarin fjögur til fimm ár. Þetta er allt í mjög nákvæmu samhengi við það, sem gerst hefur undanfarin fjögur eða fimm ár. Það er engin tilviljun að íslenska bridgesveitin vann. Það var engin lukka. Auðvitað er lukkan góð og lukkan er með þeim sem eiga lukkuna skilið. Það var ekki lukkan þó ein. Við horfum yfir ferilinn. Við horfum yfir stígandann og þegar við horfum yfir þetta hvorttveggja, þá máttum við eiga von á því að við gætum hugsanlega unnið. Við áttum aldrei að segja meira. En við máttum eiga von á því að við gætum hugsanlega unnið, og það var nákvæmlega það sem gerðist, af því að bridgesveitin íslenska hélt haus. Hún hélt haus þegar mest gekk á. Á meðan þið voruð úti að spila, þá var haust hér á íslandi og þá voru allir verstu spádómar sem gengu yfir ísland, sem ganga yfir á haustin. Allir spádómar og spástofnanir íslendinga voru þá að berja frá sér haustverkunum, svartagallsrausinu um að allt væri að fara til helvítis. Það var afskaplega gott að fá bros frá Japan á þeim tíma. Ríkisstjórnin, hún er eins og hún er — það er óþarfi að hlæja að því — og Reykjavíkurborg tóku vissa áhættu fyrirfram í miðjum niðurskurðinum. Það var ákveðið að veðja á þessa bridgesveit. Sumir sögðu: Nú, þeir hafa unnið sér í Evrópukeppninni rétt til þátttöku í heimsmeistarakeppninni í Japan. Því ekki að lifa við það. Því ekki að segja: Þetta er nóg? Því að fara til Japan og láta rassskella okkur þar? Áhættan var tekin, traustið var tekið, trúin á liðið, og liðið stóð undir því. Í rauninni, þegar við horfum yfir farinn veg, þurftuð þið ekki að vinna riðilinn, en þið gerðuð það samt. Þeir urðu að vinna bráðabanana og þeir gerðu það. Auðvitað var það töff á stundum, ekki síst við Svíana, og reyndar eftir Svíana þá þorði maður ekki að trúa því að 80 væri nóg, — þetta eru gangsterar í liðinu — vísir til alls — en það reyndist nóg og því erum við afskaplega stolt yfir, Íslendingar. Þjóðin öll fagnar ykkur, þið vitið það. Íslenska ríkið stóð bak við ykkur með þeim þætti, sem um var beðið, og er montið af því í öllum þeim niðurskurði sem yfir stendur. Borgarstjórinn í Reykjavík, Markús Örn Antonsson, er úti á landi í dag. Við töluðum saman í dag. Borgin og Bridge-sambandið hafa verið að koma sér upp húsi sameiginlega. Borgin er ágætur félagi, en samt sem áður ákvað Bridssambandið að kaupa hlutinn af borginni og skuldaði borginni 10 milljónir af því tilefni. Borgarstjórinn sagði mér í dag að vegna þess, sem þið hafið gert, vildi hann beita sér fyrir því að þessi tíu milljóna skuld yrði felld niður, en þið ættuð heimilið, sem þið eigið skilið. Ég flyt ykkur kveðjur hans og bridge-menn vita það að þið hafið semsagt unnið fyrir þessu með þessum hætti. Frá ríkinu — hinu bláfátæka ríki—vil ég nefna að við munum þrátt fyrir allt, þegar á herðir, standa við bakið á ykkur, eins og þið eigið skilið, ykkur og ykkar sporgöngumönnum, vegna þess að það er enginn vafi á því að þið hafið verið núna í Japan og vitið ekki haus eða sporð á hvað er að gerast. Það er enginn vafi á því að þið eruð búin að kveikja slíkan bridgeáhuga með þessari undarlegu þjóð að hann slokknar ekki svo glatt. Ég er stoltur af ykkur og ég er afskaplega stoltur af að hafa unnið ykkur einu sinni í bridge. Ég var að vísu með einn landsliðsmanninn — Þorlákur var í mínu liði og Þórarinn Sigþórsson og Jón Steinar — en við unnum, þú manst það Jón. Það er ekki rétt að þið hafið gefið þetta til þess að... Kæru heimsmeistarar, hlustið á þetta — heimsmeistarar — kæru heimsmeistarar, hjartanlega velkomin heim, og ég vil biðja menn að segja skál við heimsmeistarana, og til þess að gera okkur dagamun skulum við ekki bara segja skál, við skulum rísa á fætur og segja ekki bara skál, við skulum segja Bermúdaskál og síðan skulum við segja: Heimsmeistaramir lengi lifi, þeir lifi...."“
  [5]

Tilvísanir[breyta]

 1. Ásdís Halla Bragadóttir: Í hlutverki leiðtogans (2000): bls. 60
 2. Áramótaávarp 2002-2003; Morgunblaðið, 2003, 3. jan, bls. 28
 3. Ómar Friðriksson. „Get núna horfið glaður og keikur af hinu pólitíska sviði“. Morgunblaðið. 93 (281) (2005): 21.
 4. Davíð trylltist: „þér verði ólíft á Íslandi það sem eftir er“; af DV.is 12. apríl 2010
 5. Máttum eiga von á að geta hugsanlega unnið; grein í Tímanum 1991

Tenglar[breyta]

Wikipedia hefur grein um