Brennu-Njáls saga

Úr Wikivitnun, frjálsa tilvitnanasafninu
(Endurbeint frá Njáls saga)

Brennu-Njáls saga (Njáls saga eða Njála) er ein þekktasta Íslendingasagan og sú lengsta.

Tilvitnanir[breyta]

  • „Bergþóra hét kona hans. Hún var Skarphéðinsdóttir, kvenskörungur mikill og drengur góður og nokkuð skaphörð.“
Lýsing á Bergþóru, konu Njáls Þorgeirssonar á Bergþórshvoli. (20. kafli).
  • „Ærið fögur er mær sjá og munu margir þess gjalda. En hitt veit eg eigi hvaðan þjófsaugu eru komin í ættir vorar.“
Hrútur Herjólfsson við bróður sinn Höskuld Dalakollsson um Hallgerði Höskuldsdóttur. (1. kafli).
  • „Gefa mundi eg til alla eigu mína að eg hefði þar aldrei komið.“
Unnur Marðardóttir við föður sinn þegar hún vill skilja við mann sinn Hrút Herjólfsson á Hrútsstöðum í Laxárdal. (6. kafli).
  • „Gott má eg frá honum segja það allt er honum er sjálfrátt.“
Unnur Marðardóttir gígju um Hrút Herjólfsson mann sinn þegar hún vill skilja við hann. (7. kafli).
  • „Er sú kona illa gift er þú átt.“
Þjóstólfur, fóstri Hallgerðar Höskuldsdóttur langbrókar, við Þorvald Ósvífursson, fyrsta mann hennar, áður en hann hjó hann til bana. (11. kafli).
  • „Nú hefi eg það að gert að þú munt gefin vera í annað sinn.“
Þjóstólfur við Hallgerði langbrók eftir að hann hafði vegið fyrsta mann hennar, Þorvald Ósvífursson á Meðalfellsströnd undir Felli. (12. kafli).
  • „Ert þú mjög reyndur en þó mun þú meir síðar því að margur mun þig öfunda.“
Njáll á Bergþórshvoli við Gunnar á Hlíðarenda þegar hann kom úr utanför sinni. Orðin þýða í raun: Þú hefur reynt margt en þó munt þú reyna meira síðar. (32. kafli).
  • „Mannvönd mun eg vera.“
Hallgerður Höskuldsdóttir við Gunnar á Hlíðarenda á alþingi þegar hann spyr hana hvort henni þyki hvergi fullkosta. (33. kafli).
  • „Af henni mun standa allt hið illa er hún kemur austur hingað.“
Njáll á Bergþórshvoli mælir þessi orð við Gunnar á Hlíðarenda þegar Gunnar segir honum að hann hafi fastnað sér Hallgerði Höskuldsdóttur. (33. kafli).
  • „Á ég Njáli marga sæmd að launa og mun eg ekki vera eggjanarfífl þitt.“
Gunnar á Hlíðarenda við Hallgerði, konu sína, í vetrarboði að Bergþórshvoli eftir að þeim Bergþóru, konu Njáls, hafði lent saman. Í heild sinni: „Er það maklegast að þú sennir við heimamenn þína en eigi í annarra mana híbýlum enda á ég Njáli marga sæmd að launa og mun eg ekki vera eggjanarfífl þitt“. (35. kafli).
  • „Hvergi mun eg þoka því að engi hornkerling vil eg vera.“
Hallgerður langbrók við Bergþóru, konu Njáls, í vetrarboði að Bergþórshvoli þegar Bergþóra biður Hallgerði að þoka fyrir Þórhöllu Ásgrímsdóttur, konu Helgu Njálssonar. (35. kafli).
  • „Ekki er þó kosta munur með ykkur Njáli. Þú hefir kartnagl á hverjum fingri en hann er skegglaus.“
Hallgerður langbrók Höskuldsdóttir við Bergþóru, konu Njáls á Bergþórshvoli, í vetrarboði að Bergþórshvoli eftir að Bergþóra hefur látið Hallgerði þoka úr sæti fyrir Þórhöllu Ásgrímsdóttur, konu Helga Njálssonar. (35. kafli).
  • „Fleiri munu kunna að höggva stórt en þú einn.“
Kolur, verkstjóri Hallgerðar langbrókar, við Svart, húskarl Njáls og Bergþóru á Bergþórshvoli áður en hann hjó hann banahögg þar sem Svartur var að höggva skóg í Rauðuskriðum. (36. kafli).
  • „Jafnkomið mun á með ykkur Njáli er hvortveggi er blauður.“
Hallgerður langbrók við Gunnar á Hlíðarenda, eiginmann sinn þegar hann mælir gegn henni eftir víg húskarla þeirra Njáls. Með orðunum sínum gefur hún jafnt í skyn að þeir séu huglausir og hneigist til eigin kyns, en orðið blauður gat þýtt hvort tveggja til forna. (38. kafli).
  • „Ef þér rekið eigi þessa réttar þá munuð þér engrar skammar reka.“
Orð Bergþóru Skarphéðinsdóttur við Njál, mann sinn og syni þeirra þegar hún hvetur þá til hefnda eftir að farandi konur höfðu flutt henni ummæli Hallgerðar langbrókar um þá feðga. (44. kafli).
  • „Jafnan orkar tvímælis þó að hefnt sé.“
Njáll á Bergþórshvoli við konu sína þegar hún geisaði við þá feðga og hvatti til hefnda eftir ummæli Hallgerðar langbrókar um þá. (44. kafli).
  • „Kemst þó að seint fari.“
Njáll á Bergþórshvoli við konu sína þegar hún geisaði við þá feðga og hvatti til hefnda vegna ummæla Hallgerðar langbrókar um þá. (44. kafli).
  • „Gersemi ert þú hversu þú ert mér eftirlátur.“
Hallgerður langbrók við Sigmund Lambason, frænda Gunnars eftir að hann kvað níð um Njál og sonu hans. (44. kafli).
  • „Meira þykir mér verð vinátta þín og sona þina.“
Gunnar á Hlíðarenda við Njál á Bergþórshvoli eftir að Njáll gaf honum hey á fimmtán hesta og mat á fimm eftir að Gunnar hafði gefið frá sér allt hey og mat í hallæri er gekk um sveitir. (47. kafli).
  • „Illa er þá ef eg er þjófsnautur.“
Orð Gunnars á Hlíðarenda við Hallgerði konu sína þegar hann laust hana kinnhest eftir að hún hafði borið á borð fyrir hann þjófstolinn mat úr Kirkjubæ. (48. kafli).
  • „Hvikið þér allir nema Skammkell.“
Otkell í Kirkjubæ við Hallkel, bróður sinn, þegar Otkell sendir Skammkel, vin sinn, til fundar við þá Gissur hvíta og Geir goða og Skammkell lýgur til um alla málavöxtu. [Orð þessi eru stundum höfð sem orðtak þegar menn eiga fárra eða engra kosta völ]. (49. kafli).
  • „Hvort nam eg þig eða eigi?“
Kolskeggur, bróðir Gunnars á Hlíðarenda, við Kol Egilsson í orrustunni við Knafahóla eftir að hann hjó undan Koli fótinn. [Orðin þýða í raun: Hvort svipti ég þig (einhverju) eður ei?]. (63. kafli).
  • „Koma mun til mín feigðin hvar sem eg er staddur.“
Gunnar á Hlíðarenda við Kolskegg bróður sinn þegar Kolskeggur biður hann að vera varan um sig. (68. kafli).
  • „Gott hjóna ert þú. “
Njáll á Bergþórshvoli við sauðamann sem varar við liðssafnaði þeirra Þorgeirs Otkelssonar og Þorgeirs Starkarsonar sem vildu fara að Gunnnari á Hlíðarenda. (69. kafli).
  • „Halda mun eg við þig mínum trúnaði til dauðadags.“
Njáll á Bergþórshvoli við Gunnar á Hlíðarenda eftir að Gunnar hafði vegið Þorgeir Otkelsson og áður föður hans Otkel í Kirkjubæ og því vegið tvisvar í sama knérunn, þ.e. í sömu ætt, en við því hafði Njáll varðað hann að gera. (73. kafli).
  • „Eigi vil eg að synir þínir séu drepnir fyrir mínar sakar og átt þú annað að mér.“
Gunnar á Hlíðarenda við Njál á Bergþórshvoli þegar Njáll býður honum að Skarphéðinn og Höskuldur, synir hans, fari til hans að Hlíðarenda.(75. kafli)
  • „Illa fer þér og mun þín skömm lengi uppi.“
Orð Rannveigar, móður Gunnars á Hlíðarenda, við Hallgerði langbrók þegar hún hafði neitað honum um leppa tvo úr hári sínu til bogastrengs. [Leppur var í fornmáli haft um hárlokk].(77. kafli).
  • „Skiptið ekki orðum við Hrapp, en gjaldið honum rauðan belg fyrir gráan.“
Orð Skarphéðins Njálssonar um Víga-Hrapp. (91. kafli).
  • „Aldrei vissi ég að þið bræður munduð gera drengskap ykkarn til fjár.“
Orð Þráins Sigfússonar þegar Njálssynir biðja um bætur fyrir hrakninga sem þeir urðu fyrir í Noregi fyrir tilverkan Þráins. (91. kafli).
  • „Allt orkar tvímælis þá er gert er.“
Ummæli Njáls á Bergþórshvoli þegar rætt er um að hefna ófaranna er Njálssynir urðu fyrir í Noregi. (91. kafli).
  • „Karlmannlega er að farið.“
Ummæli Kára Sölmundarsonar eftir að Skarphéðinn Njálsson hafði hlaupið milli höfuðísa á Markarfljóti og rennt sér fótskriðu að Þráni Sigfússyni og klofið höfuð hans ofan í jaxlana svo ð þeir féllu niður á ísinn. (92. kafli).
  • „Margir kjósa eigi orð á sig.“
Bergþóra Skarphéðinsdóttir þegar göngukonur bera henni þá sögu að Þráinn Sigfússon og fylgdarmenn hans hafi verið fjölorðir og illorðir til Njáls, bónda hennar, og sona þeirra. [Orðin þýða í raun: Margir fá því ekki ráðið hvað um þá er sagt]. (92. kafli).
  • „Betur er svarað en eg spurði og munt þú verða góður maður.“
Njáll á Bergþórshvoli við Höskuld Þráinsson þegar Njáll hefur spurt hann um banamein föður hans. (94. kafli).
  • „Eggjar móðir vor oss nú lögeggjan.“
Orð Skarphéðins Njálssonar þegar móðir hans, Bergþóra, hvetur syni sína til að hefna hálfbróður síns, Höskuldar Njálssonar, sem Njáll hafði átt með Hróðnýju Höskuldsdóttur. (99. kafli).
  • „Hirð eigi þú að hopa á hæl, Hvítanesgoðinn.“
Orð Skarphéðins Njálssonar þegra þeir bræður fóru að fóstbróður sínum, Höskuldi Hvítanesgoða Þráinssyni. (111. kafli).
  • „Dauði minn og konu minnar og allra sona minna.“
Ummæli Njáls á Bergþórshvoli þegar þeir synir hans hafa vegið Höskuld Hvítanesgoða Þráinssonar, fósturson hans, og Skarphéðinn, sonur hans spyr hvað koma muni eftir vígið. (111. kafli).
  • „Karlmannlegt verk væri þetta ef einn hefði að verið.“
Ummæli Hildigunnar Starkarðsdóttur, konu Höskuldar Hvítanesgoða þegar hún fréttir að Skarphéðinn Njálsson hafi lýst vígi Höskuldar á hendur sér. (112. kafli).
  • „Hvorki er eg konungur né jarl.“
Orð Flosa Þórðarsonar Freysgoða að Svínafelli í Öræfum við Hildigunni Starkarðsdóttur, bróðurdóttur sína, þegar hún tók á móti honum eftir víg manns síns, Höskuldar Þráinssonar Hvítanesgoða, sem var fóstursonur Njáls á Bergþórshvoli, en synir Njáls vógu Höskuld. (116. kafli).
  • „Eru nú tveir kostir til og er hvorgi góður.“
Flosi Þórðarson, Brennu-Flosi, þegr þeir geta ekki sótt Skarphéðin og bræður hans með vopnum að Bergþórshvoli. (128. kafli)
  • „Skalt þú eigi þurfa heitara að baka.“
Orð Grana Gunnarssonar frá Hlíðarenda við Skarphéðinn Njálsson þegar Flosi og menn hans kveikja eld til að brenna Njál og syni hans inni. (129. kafli).
  • „Eg var ung gefin Njáli og hefi eg því heitið honum að eitt skyldi ganga yfir okkur bæði.“
Bergþóra Skarphéðinsdóttir á Bergþórshvoli, eiginkona Njáls Þorgeirssonar, þegar Flosi Þórðarson, Brennu-Flosi, bauð henni að ganga úr brennunni á Bergþórshvoli. (129. kafli).
  • „Guð er miskunnsamur og mun hann oss eigi láta brenna bæði þessa heims og annars.“
Njáll á Bergþórshvoli við heimafólk sitt þegar brennumenn höfðu komið eldi í skálann og stór bál voru fyrir öllum dyrum. (129. kafli).
  • „Hitt hefir þú mér heitið, amma, að við skyldum aldrei skilja meðan eg vildi hjá þér vera. En mér þykir miklu betra að deyja með ykkur Njáli en lifa eftir.“
Orð Þórðar litla Kárasonar við Bergþóru Skarphéðinsdóttur fyrir brunann að Bergþórshvoli. (129. kafli).
  • „Eigi vil eg út ganga því að eg er maður gamall og er eg lítt til búinn að hefna sona minna en eg vil eigi lifa við skömm.“
Njáll á Bergþórshvoli við Flosa Þórðarson, Brennu-Flosa, þegar hann bauð honum útgöngu úr brennunni að Bergþórshvoli, Njálsbrennu. (129. kafli).
  • „Hvort grætur þú nú, Skarphéðinn?“
Orð Gunnars Lambasonar við Skarphéðinn Njálsson þegar honum fór að súrna í augum í brennunni. (130. kafli).
  • „Finn eg það á svörum þínum að þú hefir kvonríki.“
Ummæli Flosa Þórðarsonar á Svínafelli, Brennu-Flosa við Sörla Brodd-Helgason. (134. kafli).
  • „Var andlit hans sem í blóð sæi en stórt hagl hraut úr augum honum.“
Orð sem höfundur Njáls sögu hefur um Þórhall, son Ásgríms Elliðagrímssonar, þegar málsókn hófst á alþingi vegna brennunnar á Bergþórshvoli, þar sem Njáll brann inni, en Njáll hafði fóstrað Þórhall og gert hann að mesta lögmanni á Íslandi. (142. kafli).
  • „Eg mun fyrir engum manni á hæl hopa.“
Björn í Mörk við Kára Sölmundarson. (148. kafli).
  • „Ber er hver að baki nema sér bróður eigi.“
Kári Sölumundarson um Björn í Mörk. Orðin eru einnig lögð í munn Grettis Ásmundssonar í Grettis sögu sem segir: Ber er hver á bakinu nema sér bróður eigi. (152. kafli).
  • „Ber þú sjálfur fjanda þinn.“
Hrafn hinn rauði við Sigurð Orkneyjarjarl Hlöðvisson í Brjánsbardaga þegar jarl bað hann bera merki sitt en allir merkisberar jarls höfðu þá verið vegnir. (162. kafli).

Tenglar[breyta]

Wikiheimild hefur upp á að bjóða frumtexta tengt: